Sunday, October 18, 2009

Golden Rose?


Heyrði fyrst um þessar vörur frá vinkonu minni sem vinnur á snyrtistofu hér í bæ. Gleymdi þeim svo bara en þetta eru vörur sem eru víst seldar bara á snyrtistofum.

Hef ekkert kynnt mér þær en finnst þetta forvitnilegt merki, sérstaklega fyrir þær sakir hvað þetta eru ódýrar vörur og líta ekkert sérstaklega út fyrir vera drasl.

Endilega kommentið ef þið þekkið þetta eitthvað, er að spá í að kíkja betur á þær.

Golden Rose heimasíðan

Thursday, October 8, 2009

Hræbilleg lausn fyrir hárið!

Ég heyrði ráð einhverntíma fyrir löngu, líklega bara snemma í vor.

Nú er ég með sítt, dökk hár sem ég lita reglulega og vill verða svolítið þurrt í endana. Ég trimma það reglulega og djúpnæri en stundum nægir það ekki alveg svo ég hef sett oft "krullukrem" (er með náttúrulega liði í ofanálag) og allskonar krem fyrir hárið. Þau eru hinsvegar oft alveg fokdýr.

Allavega, ég var stödd í Bónus á dögunum sem er ekki í frásögur færandi nema hvað að ég var að labba framhjá snyrtivörunum þegar ég mundi eftir þessu frábæra ráði!

Nivea kremið í bláu dollunum í hárið?!



Jú hljómar virkilega absúrd en trúið mér, hárið verður ansi flott bara.
Ég tek smá (og þá meina ég smá, smá) á puttana og nudda lófunum saman. (Kremið er svo skjannahvítt að maður verður að passa sig þegar maður er með dökkt hár)
Ég ber það svo í endana þegar hárið er þurrt og kannski aðeins yfir í restina.
Man nú ekki í svipinn hvað dollan kostar en það var allavega klink.

Hár er auðvitað misjafn en mitt verður allavega virkilega flott eftir þessa eðal Nivea meðferð!

Saturday, September 26, 2009

Ekki þó alfarin...

Æ afsakið mig, búið að vera svolítið mikið að gera eftir sumarfríið og ekki gefið mér neinn tíma í að blogga.
Pjattið er jú enn á sínum stað og alltaf að fylgjast með, þó maður hafi ekki alveg efni á því að prófa það nýjasta (jú, sumir eru ekki sponsoraðir *hóst*)
En örvæntið ekki!
Prófaði eitt nýtt! Og hvað annað en maskara?
Ég hef alveg sagt ykkur hvað ég er svag fyrir möskurum og finnst alveg möst að prófa sem flesta og leitin að hinum eina sanna stendur enn yfir þó nokkrir standi uppúr hvað varðar verð og gæði.
Allavega, þá var Maybelline að kynna nýjan maskara um daginn, Lash Stiletto.



Þessi finnst mér ágætur og á fínu verði.
Hann lengir svakalega en þykkir ekkert sérstaklega nema að maður kunni að setja maskara almennilega á (jú það er kúnst sem þarf að læra, eiginlega ekki hægt að segja að maskari sé rusl og geri ekkert fyrir mann nema að maður kunni með burstann að fara)
Ég er sátt við hann en þarf að fara alveg 2-3 umferðir og passa að nota maskaragreiðu (eða hreinan maskarabursta af gömlum maskara) til þess að greiða úr augnhárunum. Vel þess virði að prófa ef augnhárin eru stutt og þurfa lyftingu/lengingu!

Annars vil ég minna allar konur sem þetta lesa á að núna um helgina eru Tax free dagar. Ég geymi yfirleitt öll snyrtivörukaup á milli Tax free helga. Það munar alveg um þennan 20% afslátt sem þessir dagar veita.
Tax free dagarnir eru yfirleitt bæði í Hygeu og Hagkaup á sama tíma svo endilega notið tímann núna til þess að versla, svo er ekkert vitlaust að kippa með sér einni eða tveimur jólagjöfum. Alveg minna en 100 dagar í jól! ;)

Það verður örugglega styttra þangað til næst, Ég lofa!!

P.s Takk fyrir póstana sem ég hef fengið! *knús*

Sunday, August 16, 2009

Komin!

Já og það fyrir löngu bara!
Við hjónin tókum okkur mánuð í sumarfrí og svo hefur maður verið í aðlögun eftir það. Frekar erfitt að byrja að vinna aftur þó maður sé alveg tilbúinn í það, svolítil þreyta verið að gera vart við sig sem útskýrir þá af hverju ég hef verið svona blogglöt.
En nú ætla ég að reyna að bæta úr því.

Nú er náttúrulega haustið að koma og þá er svo margt nýtt og skemmtilegt að gerast í tískunni. Minn uppáhalds árstími enda á ég afmæli í lok mánaðarins, búðir fullar af góssi og allir að koma misferskir úr sumarfríi, skólar að byrja. Bara allt að gerast!

Ég ætla að fara á stúfana núna, browsa síður og blöð. Skoða það nýjasta, heitasta og já, finna út hvernig er hægt að fara ódýru leiðina að glamúrnum.
Ætlum að vera úber flottar í vetur right? ;)

Gott að minna á svona eftir sumarfrí að nota mikið af bodylotion eftir öll sólböðin. Húðin verður svo þurr eftir mikla sól auk þess sem brúnkan endist lengur.

Þangað til næst!

Saturday, July 18, 2009

Ágúst Glamour!


Já varð rétt að skjóta þessu að ykkur, fór í gær og kom auga á Glamour Uk útgáfuna fyrir ágúst. Fyrir 895.- færðu Benefit maskara og hreint ágætis tískukellingablað.
Ég samt var bara að kaupa samt maskarann, blaðið var aukreitis ánægja :)

Benefit finnast mér dásamlegar vörur nefnilega en fást því miður ekki á íslandi. Svo mér þóttu þetta afar góð kaup hjá mér!


Sá sem fylgir blaðinu er aðeins minni útgáfa en ég
prófaði hann um leið og ég kom heim og hann er geggjaður!


Annars er ég farin út að halda áfram að njóta sólarinnar! ( Að sjálfsögðu með sólarvörn!) :D

Wednesday, July 15, 2009

Ingrid Cosmetics?

Einmitt það sem ég hugsaði, hvað er það??

Ég er nú auðvitað enn í sumarfríi en langaði bara rétt að segja ykkur frá einu litlu leyndarmáli.
Ég skrapp í Krónuna í Lindum í dag, sem er í sjálfu sér klárlega ekkert merkilegt nema fyrir þær sakir að ég rambaði fram á einhvern snyrtivörustand í miðri búðinni.
Ekki einu sinni á sama stað og snyrtivörurnar eru geymdar. Ég er náttúrulega bara þannig að ég verð alltaf að skoða svona standa..
Þetta eru víst pólskar vörur og svo hrikalega hrrrææbillegar að ég varð að kaupa smá og prófa.
Og ég meina það, haldið ykkur þegar ég segi ykkur frá verðunum!

Ég keypti mér undurmjúkt púðurmeik á 699.- Naglalakk á 469.- og Augnskuggapallettu með fjórum litum á 679.-
Prófaði púðrið og það virðist vera virkilega gott bara, nema það er svolítið mikil ilmefni í því. Augnskuggarnir lofa góðu en ekki prófað þá almennilega og naglalakkið verður prófað á morgun. Umbúðirnar eru furðulega fínar bara og úrvalið í þessum fína standi er bara alveg frábært. Sá þarna hræbillega maskara sem gætu lofað góðu sem og margar tegundir af augnblýöntum sem virtust vera virkilega mjúkir og fínir.
Maskararnir voru á innan við þúsundkall og blýantarnir í kringum 3-400kr.

Skoðið þetta dömur, Krónan í Lindum - Ingrid Cosmetics!

Friday, June 26, 2009

Sumarfrí!!

Fyrirgefið bloggletina stúlkur mínar, búið að vera brjálað að gera hjá mér þessa vikuna og svo er ég farin bara í sumarfrí!

Ég læt heyra í mér einhverntíma á milli sólbaða og tjaldútilega!

Eigið góða, skvísulega sumardaga! :)

Ástarkveðja!

Saturday, June 20, 2009

Kryddlegin Hjörtu

Ég uppgötvaði þennan veitingastað fyrir viku síðan. Hafði oft keyrt þarna framhjá en aldrei litið inn. Eitthvað svo fallegt nafn líka.

Á laugardaginn síðasta dró ég manninn minn þangað rétt eftir hádegið, huggulegasti staður mjög vel staðsettur í bænum, er á Skúlagötunni með dásamlegt útsýni yfir sjóinn og Esjuna.

Við hittum fyrir eiganda staðarins sem jafnframt er kokkurinn á staðnum. Hún fór yfir það sem í boði var. Við gátum valið á milli fjögurra tegunda af súpum, þarna var salatbar sem hún útskýrði vel hvað innihélt auk þess er boðið upp á brauð sem bakað er úr spelti og íslensku bankabyggi og með því býður hún upp á heimalagað hummus og hvítlaukssmjör.
Settumst niður eftir að hafa valið okkur súpu og sett salat og brauð á disk.

Himnasæla. Í einu orði sagt.
Í salatbarnum sem á ekkert sameiginlegt með þeim sem finnst í Hagkaup og öðrum stórmörkuðum var að finna allskonar lífrænt dótarí og salöt. Fræblandan er fullkomin yfir ásamt fetaosti. Smakkaði hjá henni kókos-karrý kjúklingasúpuna líka þarna fyrir viku. Hét henni því að ég kæmi fljótt aftur og jú, ég fór aftur í dag.
Af hverju? Jú, mig hafði dreymt um þetta blessaða brauð og hummus í HEILA VIKU!
Aldrei smakkað betra brauð og betra hummus.
Smakkaði líka í dag Sjávarréttasúpuna sem fer með mann til himna og aftur til baka.
Í þessum mat er fullt af ást og hlýju og maður finnur það. Hélt reyndar að það væri ekki hægt en þarna var það afsannað.

Og hvað borgar maður fyrir þetta dásamlega lífræna hlaðborð? 1390.- fyrir herlegheitin í hádeginu og þúsundkall ef maður vill taka með sér heim.

Ég vil taka það fram að ég hef engra hagsmuna að gæta, fannst bara að ég yrði að láta aðra vita af þessum stað. Þvílíkt yndi.
Örugglega frábært fyrir vinkonur að hittast þarna í hádeginu, í dag fór ég reyndar bara ein, borðaði í rólegheitunum og las Moggann. Bara dásamlegt.

Vel nærð kona er klárlega falleg kona ;)

Thursday, June 18, 2009

Handsnyrting fyrir lítið

Ég er ekkert sérstaklega hrifin af gervilegum löngum nöglum með french manicure. Þetta er rándýrt, óþægilegt og sérlega gálulegt. Mér finnst miklu fallegra að vera með stuttar vel snyrtar neglur og jafnvel með einhverju fallegu lakki.
Í tískuheiminum er enginn með svona *hvísl* gleðikonuneglur, þær sjást einungis á Playboy kanínum og mjög appelsínugulum smástelpum.

Mér finnst alltaf svo huggulegt að dúlla mér við þetta að kvöldi til, með góða mynd í tækinu, maska í andlitinu og í fallegum slopp.

1. Byrjið á því að fjarlægja gamalt naglalakk, notið acetone lausan naglalakkseyði, hann fer betur með neglurnar.
2. Þjalið neglurnar í það form sem þið kjósið, það sem mér finnst persónulega fallegast er að hafa þær frekar stuttar og vel mótaðar. Þjalið alltaf í eina átt í stað þess að juða þjölinni fram og til baka. Það fer sérstaklega illa með neglurnar.
3. Setjið volgt vatn í skál með mildri sápu, dýfið fingurgómunum ofan í og bíðið í nokkrar mínútur, þetta mýkir naglaböndin.
4. Ég nota þjöl sem er í nokkrum „hlutum“, nota grófasta hlutann til þess að móta neglurnar, næst grófasta til þess að pússa þær að ofan, númer þrjú sem er ennþá fínni og pússar nánast ekkert heldur dregur fram olíuna sem er til staðar í nöglunum og að síðustu pólera ég neglurnar. Þá glansa þær svakalega fínt og ég sé náttúrulega olíuna koma fram og næra nöglina.
5. Penslið naglabandakremi (má alveg nota dropa af ólífuolíu) í örlitu magni yfir naglaböndin og nuddið vel, ýtið naglaböndunum upp með þar til gerðu naglapriki.
6. Setjið á ykkur góðan handáburð og nuddið vel höndunum saman.
7. Þurrkið aðeins yfir neglurnar með eldhúspappír til þess að fjarlægja umfram olíu af nöglunum.
8. Penslið naglagrunni yfir neglurnar, þetta er til þess að vernda nöglina og fylla upp í ójöfnur ef einhverjar eru. Naglalökk eiga það til að lita neglurnar.
9. Finnið uppáhalds litinn ykkar og berið á tvö lög. Byrjið á að pensla beint yfir nöglina miðja og svo til hliðanna. Gefið ykkur góðan tíma fyrir lakkið að þorna.
10. Berið á yfirlakk. Ég geri það sjaldnast, en lakkið endist lengur ef ég geri það.

Tuesday, June 16, 2009

10 fæðutegundir sem stuðla að auknu hreysti og fegurð

1. Villtur lax: Frábær uppspretta Omega 3 fitusýra sem koma í veg fyrir roða og bólgur, hrukkur og stuðla að þéttari áferð húðarinnar. Inniheldur einnig andoxunarefni, D og B vítamín.
2. Fituskert jógúrt: Í einu orði sagt, kalk! Gott fyrir beinin, tennurnar og neglur.
3. Ostrur: Besta uppspretta Sinks. Sink hjálpar til við að byggja upp kollagen sem hjálpar svo hinsvegar til við uppbyggingu húðarinnar og flýtir fyrir endurnýjun.
4. Bláber: Skellið ykkur í berjamó og úðið í ykkur fersk berin strax og frystið svo! Stútfull af andoxunarefnum sem hjálpa til við að koma í veg fyrir hrörnum fruma.
5. Kiwi: Önnur frábær uppspretta andoxunarefna, auk þess að vera stútfull af C-vítamíni og Kalíum sem einnig koma í veg fyrir hrukkumyndun.
6. Sætar Kartöflur: Fullar af Beta-Karótíni (appelsínuguli liturinn sem einnig finnst í gulrótum og kantalópum) sem er efni sem líkaminn breytir í A vítamín sem hjálpar til við að halda húðinni mjúkri og þykir gefa vörn gegn skaðlegum geislum sólarinnar.
7. Spínat: Þessi græna næringarsprengja inniheldur mikið magn af lútíni sem verndar augun auk þess að innihalda einnig karótín eins og sætu kartöflurnar.
8. Tómatar: Meiriháttar ávextir (sumir segja grænmeti, ég segi ávextir) sem innihalda mikið magn af Lycopeni en það er rauði liturinn í tómötunum. Þykir gefa góða vörn gegn sólbruna auk þess sem þykir sannað að það gefi vörn gegn ákveðnum tegundum af krabbameini. En það furðulega er að það er meira magn af þessu efni í unnum afurðum tómata en í ferskum.
9. Valhnetur: Innihalda mikið magn af omega 3 fitusýrum og E vítamíni. Omega 3 fitusýrurnar í valhnetunum hjálpa til við að vinna gegn húðsjúkdómum eins og t.d Exemi og Psoriasis.
10. Dökkt súkkulaði: Einnig fullt af andoxunarefnum og öðrum næringarefnum. Veljið súkkulaði sem er með minnst 60% kakóinnihaldi. Eykur blóðflæði til húðarinnar, sem eykur rakastig húðarinnar, mýkir hana og verndar gegn sólargeislum.

Þýtt og staðfært 16.6.2009 af eiganda bloggsins www.fegurdafjarlogum.blogspot.com.

Sunday, June 14, 2009

Nýtt meik!

Um helgina voru TAX free dagar í Hagkaup og af því að ég var búin að ákveða að splæsa í nýtt meik þegar þeir yrðu næst fór ég í dag og skoðaði úrvalið. Ég hef alltaf verslað meik í MAC svo ég vissi eiginlega ekki alveg hvað ég var að fara út í.

Það er dálítill frumskógur að velja sér meik úr ódýrari línunum, svo margt í boði. Þessi merki; Nivea, Maybelline, Gosh, Bourjois ofl. bjóða öll upp á nokkrar gerðir svo maður þarf að gefa sér ansi góðan tíma þegar maður er ekki alveg klár á því hverju maður leitar eftir.

Ég er með blandaða húð, fæ stundum eina og eina bólu. Glansandi T svæði, þurrar kinnar og frekar stórar svitaholur á kinnunum nálægt nefinu.
Eftir nokkrar skoðunarferðir og leit fann ég það sem ég hafði leitað að:
Fljótandi, olíulaust, með SPF 15, ilmefnalaust, rakagefandi og PUMPU! (En það finnst mér afar mikilvægur fídus) Það þekur vel, en er létt samt.

Þetta er gripurinn:












MAYBELLINE, Pure liquid mineral foundation.

Þetta er kannski frekar dýrt á ódýra merkja skalanum en samt, allt hefur hækkað svo mikið að ég get ekki annað en verið sátt. Fyrir afslátt var þetta á 3499.- en með afslætti eitthvað í kringum 2800.-

Lestu meira um vöruna HÉR!

Friday, June 12, 2009

Niðurstöður úr könnun "Notar þú tannþráð"?

Ég verð að segja að ég er frekar hissa á þessum niðurstöðum sem komu úr þessari litlu könnun minni.
Af þeim 53 aðilum sem kusu varð þetta niðurstaðan.

5% Notar tannþráð daglega
24% Notar tannþráð nokkrum sinnum í viku
56% Nota tannþráð sjaldan
og heil 13% Nota aldrei tannþráð.

Þetta þykja mér frekar sláandi niðurstöður þar sem notkun tannþráðar er afskaplega mikilvægt atriði í tannumhirðu.
Ég viðurkenni það fullvel að ég var hundlöt við þetta. Gerði þetta aldrei. Svo fékk ég með stuttu millibili 3 litlar skemmdir sem tannlæknirinn minn rak beint til skorts á notkun tannþráðar. Þær voru nefnilega allar staðsettar á milli tannana. Hann sagði einfaldlega við mig að ég hefði mátt koma í veg fyrir þetta bara með því að nenna að nota tannþráð, tannbursti væri einfaldlega ekki nóg og tannþráður næði til staða sem burstinn kemst ekki á.
Þrátt fyrir það var ég lengi að koma þessu upp í vana en síðan þá, fengið bara eina pínkulitla skemmd 7, 9,13...

Þetta er fróðleg lesning: Leiðbeiningar fyrir notkun tannþráðar

Takið upp þráðinn elsku vinkonur, kostar minna en ferðirnar til tannlæknisins, tekur enga stund og svo eru hreinar, fallegar tennur algert lykilatriði í skvísuskap :D

Tuesday, June 9, 2009

Ókeypis einkaþjálfari?

Ég þarf eins og flestir að hreyfa mig en mér hefur alltaf fundist það vera svolítið kvöð.
Ég hef örugglega eytt (ég þori varla að viðurkenna það) tugum ef ekki hundruðum þúsunda í ónotuð árskort (styrktaraðili líkamsræktarstöðva) í gegnum tíðina.

En nú er kreppa. Og ég hef nýlosnað úr líkamsræktarkortar prísundinni en þarf samt að hreyfa mig reglulega og finnst göngutúrar og skokk ekkert sérstaklega spennandi og ekkert sérlega fjölbreytt heldur.

Þá fór ég hugsa um æfingamyndbönd. Og ég komst að því að uppáhaldstöffarinn minn úr sjónvarpi, Jillian Michaels ( þeir sem hafa einhverntíma fylgst með Biggest loser vita hver sú gella er) hefur framleitt nokkuð líkamsræktarvídjó.
Þau eru hægt að panta af netinu (en þeir allra hörðustu eins og undirrituð notaði *hvísl* ólöglegt niðurhal *hvísl*)
Þetta er ekkert smáræðis púl líka, hún útskýrir vel hvað maður er að gera, á að gera og ekki gera. Hún peppar mann upp eins og besti einkaþjálfari og fyrir aaaaðeins minna en kostar að fá sér einn. Til þess að toppa dæmið fór ég í Hreysti og splæsti í 4kg handlóð fyrir tæplega fjögur þúsund kall og tja, nei þau eiga aldrei eftir að renna út, fann svo gamalt sippuband með legum sem ég fékk í sumargjöf þegar ég var 9 ára og virkar enn svona fínt.

Ef ég kveiki ekki á Jillian, tapa ég engum krónum. Það er svo einfalt, auk þess sem ég get æft allan sólarhringinn ef mér sýnist án þess að fara útúr húsi.
Til þess að vera ómótstæðilegar og dásamlegar verðum við víst að hugsa um að rækta líkamann líka.
"Gúgglið" hana bara og skoðið hvað hún hefur gert. Farið á Ebay, Amazon eða mininova og þið eigið eftir að finna fullt :)




















Nýja besta vinkona mín...

Sílíkon í varirnar? Neeeeei....

...en!

Ég er alger sökker fyrir glossum og þau eru örugglega í kringum 40 stk sem ég á.
Það nýjasta í safninu keypti ég um daginn, Pulp Action frá Bourjois.
Þetta er svona "varastækkunar" gloss og þar sem ég er með frekar þunna efrivör er ég alltaf ginnkeypt fyrir svoleiðis vöru. Fæstar þeirra virka svosem en ég er alltaf til í að reyna.

Allavega, ég s.s mátaði það í búðinni og labbaði einn hring og fann á meðan að glossið hitaði aðeins varirnar. Ok, það var þá allavega að virka eitthvað, svo ég ákvað bara að kaupa mér glossið.

Ég er að segja ykkur það, þetta er uppáhaldsglossið mitt!! Ég er eins og falleg lítil önd með þetta gloss. Sextán hundruð kall (sem er alveg nóg, en fyrir svona vara þynnildi eins og mig þá er þetta klink ;)) Það er svona fallega föl/varableikt á litinn.

Lítur svona huggulega út:

Wednesday, June 3, 2009

Dásamlegt litað dagkrem!

Ég hef notað þetta krem ansi lengi og mest á sumrin á sumrin.
Það hylur aðeins en gefur góðan lit, er ekki of bleikt og ekki of gult, sem telst vel af sér vikið fyrir svona ódýrari vörur.
Það er olíulaust en gefur samt fínan raka og er því mjög hentugt eitt og sér fyrir feita húð en yfir annað dagkrem fyrir normal/þurra húð. Einnig er þetta krem með UVA/UVB filter sem ver húðina fyrir skaðlegum geislum sólarinnar.

Á sumrin vil ég ekki hylja húðina neitt sérstaklega mikið og þá er þetta krem alveg tilvalið.
Held að ég hafi keypt það í Bónus en er örugglega til allstaðar þar sem Nivea er selt, verðið hefur nú örugglega breyst síðan ég keypti mitt en það var töluvert innan við þúsundkallinn þá en er ábyggilega eitthvað í kringum hann núna eða rétt yfir.

Þetta krem sem ég tala um er þetta hérna:












Nivea Visage Young!

Þeir voru hinsvegar að breyta eitthvað umbúðunum sínum og umbúðirnar gætu litið svona út (keypti mitt síðasta í fyrrasumar)













Alveg þess virði að prófa, fyrirtaks kreppukrem!

(Eitt enn, hef stundum verið að nota Kanebo- Instant natural Golden Glow. Rááándýrt krem en alveg frábært. Hinsvegar kemst þetta Nivea litaða dagkrem ansi nálægt því að vera staðgengill þess þegar maður er að hugsa um aurana sína!)

Thursday, May 28, 2009

Brjálað að gera

Er með fullt af bloggum í höfðinu, fullt af vörum að fjalla um og allskonar ráðum.
Það er hinsvegar brjálað að gera hjá mér þessa dagana svo ég skelli inn nýrri könnun og bið ykkur um að fylgjast með :D

Friday, May 22, 2009

Eitt lítið örblogg um besta og án efa ódýrasta skrúbbkremið!

Skrúbbkrem er án efa mjög mikilvægt að eiga. Tilgangur þess að er djúphreinsa húðina og fjarlægja dauðar húðfrumur, flýtir s.s fyrir endurnýjun húðarinnar og húðin verður geislandi og mjúk á eftir.

Hinsvegar eru góð skrúbbkrem frekar dýr. Ég er ekki mikill aðdáandi t.d Nivea, keypti það í bríaríi um daginn og hefði alveg eins getað sleppt því, magn kornanna í kreminu er ekkert...

Þetta krem sem ég gerði er eiginlega best fyrir þurra til normal húð og eitt það besta sem ég hef komist í.

Þú þarft: Kókosolíu (notaði Sollu olíuna í krukkunni) og hvítan sykur. Setti í litla skál ca matskeið af olíunni og slatta af sykri. Hrærði þessu saman og makaði þessu í andlitið, nuddaði vel yfir andlitið í dágóða stund (passa samt að vera ekki of harðhentar) og skolaði með þvottapoka og volgu vatni.

Árangurinn: Mjúk og fín fyrir tíkall! ;)

Wednesday, May 20, 2009

Persónulegt verðskyn?

Nú hef ég verið að hugsa í allan dag um verðskyn einstaklingsins.

Það sem mér finnst kannski ódýrt finnst öðrum dýrt og öfugt. Langar svolítið til þess að kanna þetta betur, hvaða viðmið þið hafið hvað varðar snyrtivörur? Hvað eru þið tilbúnar að borga fyrir t.d eins og maskara, farða (meik) naglalakk og segjum... svartan augnblýant?

Ég er til dæmis þeirrar skoðunar að maður verði að vanda valið á farða og hyljara en kaupa jafnvel alveg það ódýrasta í öllu öðru en svo eru aðrir/aðrar mér ekki sammála og segja það skipta engu máli.
Mín rök eru einfaldlega sú að ég þoli ekkert hvað sem er og farði er sú snyrtivara sem þekur mest húðsvæði í andlitinu og er í raun grunnur fyrir allt hitt. Geislandi falleg húð er undirstaða fallegrar förðunar og þessvegna skiptir farðinn svo miklu máli. Tekur maður áhættur með húðina í andlitinu? Á maður að prófa hvað sem er?
Kannski er snobbið að fara með mig ennþá hér? Gæti verið?

Hvað finnst ykkur? Og endilega segið mér frá því hvar ykkar mörk liggja hvað varðar verðið :)

2 ódýrir snilldar maskarar!

Eitt af því sem ég hef alltaf verið að berjast við eru maskarar.

Ég hef verið haldin þvílíkt alvarlegu maskarasnobbi að það jaðrar við geðveiki. Ég hef prófað allt! YSL, Dior, HR og Lancome meðal annara í dýrari merkjum og held flesta úr þessum ódýrari.
Ef ég á að fara rétt með staðreyndir þá hætti ég að kaupa ódýra maskara fyrir löngu. Af því að það var bara peningasóun að kaupa eitthvað sem var ódýrt og nota aldrei í stað þess að kaupa dýran sem entist aðeins lengur og var ánægð með.

Nóg um það.
Sá maskari sem skoraði flest stig var Helena Rubenstein, Lash Queen og hef ég keypt hann í nokkur ár. Hinsvegar er hann kominn, í 3400.- (í fríhöfninni!) og þar sem ég samviskusamlega skipti um maskara mest að þremur mánuðum liðnum þá hef ég hreinlega bara ekki samvisku í að kaupa hann lengur.
Fékk ábendingu um daginn að þessi hér væri alveg frábær:



Ákvað því að kaupa hann og prófa. Og vá! Hann er æðislegur! Og stenst fyllilega mínar kröfur um maskara, hann lengir, þykkir, helst vel á en samt auðvelt að ná af... og það besta: Verðið!
Hann er á einhver 18-1900.- í Hagkaup og þó að það megi vera dýrt (já þetta kostuðu dýrustu maskararnir ekki fyrir mjög löngu síðan) þá eru þetta hin fínustu kaup.

Hinn maskarann rakst ég á fyrir tilviljun þegar mig vantaði vatnsheldan maskara. Ég nota þá mjög sjaldan en á það til að skella smá á augnhárin (þar sem þau eru eiginlega hvít) þegar ég fer í sund. (Já og ég er mjög löt við að lita augnhár, mætti gera meira af því)
Allavega, ég fer í Hagkaup og rölti á milli standanna og finn bara þann ódýrasta í búðinni og hafði algerlega núll miklar væntingar.
Fann bláan Gosh maskara, greip hann með mér og skellti mér svo í sund. Og vá!
Hann lengir þvílíkt og rennur ekkert til . Hann er dásemlegur sem grunnur undir gula maskarann, gefur augnhárunum eitthvað "effect" þannig að þetta jaðrar við að koma út eins og gerfiaugnhár.

Mér sýnist bara á öllu að framleiðsla maskara í ódýrari merkjum hafi breyst, bilið á milli gæða hefur snarminnkað en verðbilið að sama skapi breikkað.
Ég er allavega hætt þessu merkjasnobbi í möskurum!

Tuesday, May 19, 2009

Sólarvörn!


Þetta er bara ekki smart er það?

Eitt af því mikilvægasta í umhirðu húðar er notkun sólarvarnar. Sólarvörn er eitt af því sem allar konur eiga að eiga nóg af yfir sumartímann og/eða ef stunduð er mikil útivist allt árið.
Þetta er það eina sem verndar húðina almennilega fyrir skaðlegum geislum sólarinnar og í raun er öll sólarvörn með faktor undir 10 vita gagnlaus en það má kannski deila um það.

Sú mýta sem virðist ganga á meðal íslenskra kvenna er sú að maður verður ekki brúnn af því að nota vörn.
Ég vil nota tækifærið hér og segja: What a load of crap! (eða á hinu ylhýra, kjaftæði! ;))
Það sem vörnin gerir er að lengja þann tíma sem þú getur verið úti í sólinni án þess að brenna, því ljósari húð því hærri faktor.
Vörnina skal bera á það húðsvæði sem verður fyrir geislum sólar, þó að þú sért ekki "vön" að brenna á fótunum t.d þá er samt mikilvægt að bera á þá.

Að verja húðina fyrir skaðlegum geislum sólarinnar kemur í veg fyrir ótímabæra öldrun húðarinnar, auk þess að verja hana fyrir sortuæxlum og fleiri tegundum húðkrabbameins. Því þótt að sólin sé dásamleg og hreinlega bara unaðslegt að sjá hana skína aftur getur hún verið ansi skaðleg því miður.


Sólarvarnir eru misdýrar og fást í mörgum merkjum og tegundum. Sjálf er ég hrifnust af Hawaiian Tropic en hún hefur almennt verið á viðráðanlegu verði og með svo góðri lykt.
Nivea er svo líka alltaf klassísk!

Saturday, May 16, 2009

Ódýrustu og bestu fegrunarráðin!

Hvernig get ég haldið áfram með þessa síðu án þess að nefna fyrst undirstöðu allar fegurðar?
Kona getur smurt á sig allskonar kremum og dótaríi en ekkert kemur í staðinn fyrir þetta tvennt.

Svefn og vatn.

Kostar ekkert.

Lykillinn er einfaldur. 8 tíma svefn og 8 glös af vatni á dag. Þetta eru eldgömul sannindi og verið mikið hamrað á þessu í gegnum tíðina en svo er eins og þetta gleymist bara? Of mikið að gera í skóla, vinnu og heimilishaldi til þess að spá í þessu.
Verið alltaf með vatnsflöskuna við hendina og farið ekki seinna að sofa en kl 23 þið sem vaknið kl 7.

Smá grein um vatnsdrykkju

Vatnið hreinsar, hressir, bætir og kætir. Og ef þú ert með slæma húð, bólur og fílapensla t.d skoðaðu þá hvað þú drekkur af vatni, ertu að drekka nóg? :)

Sothys Hreinsivatnið, tær snilld!

Ég get stundum verið ansi löt og mikill aðdáandi þess að hreinsun húðar taki sem stystan tíma (þó ég geti nú alveg tekið heilu kvöldin fyrir í heima-andlitsböð og almennt dekur en það er önnur saga)

Ég hef keypt hreinsivötn frá hinum ýmsu merkjum og líkað misvel. Fyrir þær sem ekki vita almennilega hvað hreinsivatn er þá er ég ekki að tala um andlitsvatn, heldur er þetta hreinsivara fyrir andlit sem er í raun þrennt í einu, hreinsir, andlitsvatn og augnfarðahreinsir í sama brúsanum. Sniðugt ha?

Ég datt niður á hreinsivatn frá Sothys um daginn, "Eau Thermale Spa-Velvet cleansing water", þetta vatn er mjög milt og gott, þróað í samvinnu við augnlækna skilst mér. Óóóótrúlega góð lykt af þessu og þetta kostar að mig minnir nákvæmlega 2096.- í Hagkaup. Passaði mig að sjálfsögðu að nýta mér Tax Free dagana svo ég fékk þetta með einhverjum 20% afslætti. Þessar vörur fást líka í Lyfju og mér sýnist vera mjög svipað verð hjá þeim.
Í brúsanum eru 200ml og sambærileg vara í öðrum merkjum fer ekki undir 3000 kallinn.



Ég nota þetta mest á morgnana. Þá er húðin ekkert sérlega óhrein en þarf samt að passa að hreinsa húðina vel, til þess að fjarlægja þau óhreinindi sem húðin losaði sig við þá um nóttina.
Og já, svona hreinsivötn endast mjög vel, þetta eru ekki nema kannski 2 "pumpur" á dag (á morgnana)

Engin ástæða til þess að vera drusló í kreppu!

Flestar okkar vilja líta vel út, án þess að eyða allt allt of miklu í það en það hafa fæstar okkar fjármagn til þess að kaupa heilu Chanel línurnar eða Kanebo, Dior, Clarins...

Því ákvað ég að stofna þetta blogg. Ekki til höfuðs neinu öðru bloggi svo það sé nú alveg á hreinu.
En í dag þurfum við svolítið að horfa í budduna okkar, og reyna að ákveða hvað er þess virði að kaupa og ekki. Því miður hefur það verið svo að ódýrari snyrtivörur hafa ekki verið nærri jafn góðar og þessar dýrari en nú hefur mér fundist það vera að breytast. Ég var merkjasnobb og keypti ekkert annað en dýr merki og hjálpi mér ef maskarinn hét ekki Dior eða Rubenstein og þetta er enn svolítið ríkjandi í mér. Þessu er ég meðvitað að reyna að breyta og ætla mér að víkka út fegurðar-sjóndeildarhringinn.
Ég ætla að reyna að finna og pósta hér inn allskonar ráðum, tipsum og umfjöllunum um ódýrar og góðar snyrtivörur.

Ég vil taka það fyrirfram að ég vinn ekki í snyrtivörugeiranum, fæ ekkert greitt og hér eru engar auglýsingar keyptar. Öll þau merki sem ég mun minnast á hér er vegna minnar eigin reynslu og mæli persónulega með.

Aðeins í lokin um mig: Ég hef verið förðunarfræðingur í 11 ár, unnið í snyrtivöruverslun og síðan ég var pínulítil haft áhuga á snyrtivörum, förðun, hári, tísku... eiginlega bara öllu sem við kemur því sem getur bætt útlit manns á einhvern hátt. Á tvö ár í þrítugt, gift og barnlaus skrifstofupía með smá frítíma aflögu.

Endilega haltu áfram að fylgjast með!