Thursday, May 28, 2009

Brjálað að gera

Er með fullt af bloggum í höfðinu, fullt af vörum að fjalla um og allskonar ráðum.
Það er hinsvegar brjálað að gera hjá mér þessa dagana svo ég skelli inn nýrri könnun og bið ykkur um að fylgjast með :D

Friday, May 22, 2009

Eitt lítið örblogg um besta og án efa ódýrasta skrúbbkremið!

Skrúbbkrem er án efa mjög mikilvægt að eiga. Tilgangur þess að er djúphreinsa húðina og fjarlægja dauðar húðfrumur, flýtir s.s fyrir endurnýjun húðarinnar og húðin verður geislandi og mjúk á eftir.

Hinsvegar eru góð skrúbbkrem frekar dýr. Ég er ekki mikill aðdáandi t.d Nivea, keypti það í bríaríi um daginn og hefði alveg eins getað sleppt því, magn kornanna í kreminu er ekkert...

Þetta krem sem ég gerði er eiginlega best fyrir þurra til normal húð og eitt það besta sem ég hef komist í.

Þú þarft: Kókosolíu (notaði Sollu olíuna í krukkunni) og hvítan sykur. Setti í litla skál ca matskeið af olíunni og slatta af sykri. Hrærði þessu saman og makaði þessu í andlitið, nuddaði vel yfir andlitið í dágóða stund (passa samt að vera ekki of harðhentar) og skolaði með þvottapoka og volgu vatni.

Árangurinn: Mjúk og fín fyrir tíkall! ;)

Wednesday, May 20, 2009

Persónulegt verðskyn?

Nú hef ég verið að hugsa í allan dag um verðskyn einstaklingsins.

Það sem mér finnst kannski ódýrt finnst öðrum dýrt og öfugt. Langar svolítið til þess að kanna þetta betur, hvaða viðmið þið hafið hvað varðar snyrtivörur? Hvað eru þið tilbúnar að borga fyrir t.d eins og maskara, farða (meik) naglalakk og segjum... svartan augnblýant?

Ég er til dæmis þeirrar skoðunar að maður verði að vanda valið á farða og hyljara en kaupa jafnvel alveg það ódýrasta í öllu öðru en svo eru aðrir/aðrar mér ekki sammála og segja það skipta engu máli.
Mín rök eru einfaldlega sú að ég þoli ekkert hvað sem er og farði er sú snyrtivara sem þekur mest húðsvæði í andlitinu og er í raun grunnur fyrir allt hitt. Geislandi falleg húð er undirstaða fallegrar förðunar og þessvegna skiptir farðinn svo miklu máli. Tekur maður áhættur með húðina í andlitinu? Á maður að prófa hvað sem er?
Kannski er snobbið að fara með mig ennþá hér? Gæti verið?

Hvað finnst ykkur? Og endilega segið mér frá því hvar ykkar mörk liggja hvað varðar verðið :)

2 ódýrir snilldar maskarar!

Eitt af því sem ég hef alltaf verið að berjast við eru maskarar.

Ég hef verið haldin þvílíkt alvarlegu maskarasnobbi að það jaðrar við geðveiki. Ég hef prófað allt! YSL, Dior, HR og Lancome meðal annara í dýrari merkjum og held flesta úr þessum ódýrari.
Ef ég á að fara rétt með staðreyndir þá hætti ég að kaupa ódýra maskara fyrir löngu. Af því að það var bara peningasóun að kaupa eitthvað sem var ódýrt og nota aldrei í stað þess að kaupa dýran sem entist aðeins lengur og var ánægð með.

Nóg um það.
Sá maskari sem skoraði flest stig var Helena Rubenstein, Lash Queen og hef ég keypt hann í nokkur ár. Hinsvegar er hann kominn, í 3400.- (í fríhöfninni!) og þar sem ég samviskusamlega skipti um maskara mest að þremur mánuðum liðnum þá hef ég hreinlega bara ekki samvisku í að kaupa hann lengur.
Fékk ábendingu um daginn að þessi hér væri alveg frábær:



Ákvað því að kaupa hann og prófa. Og vá! Hann er æðislegur! Og stenst fyllilega mínar kröfur um maskara, hann lengir, þykkir, helst vel á en samt auðvelt að ná af... og það besta: Verðið!
Hann er á einhver 18-1900.- í Hagkaup og þó að það megi vera dýrt (já þetta kostuðu dýrustu maskararnir ekki fyrir mjög löngu síðan) þá eru þetta hin fínustu kaup.

Hinn maskarann rakst ég á fyrir tilviljun þegar mig vantaði vatnsheldan maskara. Ég nota þá mjög sjaldan en á það til að skella smá á augnhárin (þar sem þau eru eiginlega hvít) þegar ég fer í sund. (Já og ég er mjög löt við að lita augnhár, mætti gera meira af því)
Allavega, ég fer í Hagkaup og rölti á milli standanna og finn bara þann ódýrasta í búðinni og hafði algerlega núll miklar væntingar.
Fann bláan Gosh maskara, greip hann með mér og skellti mér svo í sund. Og vá!
Hann lengir þvílíkt og rennur ekkert til . Hann er dásemlegur sem grunnur undir gula maskarann, gefur augnhárunum eitthvað "effect" þannig að þetta jaðrar við að koma út eins og gerfiaugnhár.

Mér sýnist bara á öllu að framleiðsla maskara í ódýrari merkjum hafi breyst, bilið á milli gæða hefur snarminnkað en verðbilið að sama skapi breikkað.
Ég er allavega hætt þessu merkjasnobbi í möskurum!

Tuesday, May 19, 2009

Sólarvörn!


Þetta er bara ekki smart er það?

Eitt af því mikilvægasta í umhirðu húðar er notkun sólarvarnar. Sólarvörn er eitt af því sem allar konur eiga að eiga nóg af yfir sumartímann og/eða ef stunduð er mikil útivist allt árið.
Þetta er það eina sem verndar húðina almennilega fyrir skaðlegum geislum sólarinnar og í raun er öll sólarvörn með faktor undir 10 vita gagnlaus en það má kannski deila um það.

Sú mýta sem virðist ganga á meðal íslenskra kvenna er sú að maður verður ekki brúnn af því að nota vörn.
Ég vil nota tækifærið hér og segja: What a load of crap! (eða á hinu ylhýra, kjaftæði! ;))
Það sem vörnin gerir er að lengja þann tíma sem þú getur verið úti í sólinni án þess að brenna, því ljósari húð því hærri faktor.
Vörnina skal bera á það húðsvæði sem verður fyrir geislum sólar, þó að þú sért ekki "vön" að brenna á fótunum t.d þá er samt mikilvægt að bera á þá.

Að verja húðina fyrir skaðlegum geislum sólarinnar kemur í veg fyrir ótímabæra öldrun húðarinnar, auk þess að verja hana fyrir sortuæxlum og fleiri tegundum húðkrabbameins. Því þótt að sólin sé dásamleg og hreinlega bara unaðslegt að sjá hana skína aftur getur hún verið ansi skaðleg því miður.


Sólarvarnir eru misdýrar og fást í mörgum merkjum og tegundum. Sjálf er ég hrifnust af Hawaiian Tropic en hún hefur almennt verið á viðráðanlegu verði og með svo góðri lykt.
Nivea er svo líka alltaf klassísk!

Saturday, May 16, 2009

Ódýrustu og bestu fegrunarráðin!

Hvernig get ég haldið áfram með þessa síðu án þess að nefna fyrst undirstöðu allar fegurðar?
Kona getur smurt á sig allskonar kremum og dótaríi en ekkert kemur í staðinn fyrir þetta tvennt.

Svefn og vatn.

Kostar ekkert.

Lykillinn er einfaldur. 8 tíma svefn og 8 glös af vatni á dag. Þetta eru eldgömul sannindi og verið mikið hamrað á þessu í gegnum tíðina en svo er eins og þetta gleymist bara? Of mikið að gera í skóla, vinnu og heimilishaldi til þess að spá í þessu.
Verið alltaf með vatnsflöskuna við hendina og farið ekki seinna að sofa en kl 23 þið sem vaknið kl 7.

Smá grein um vatnsdrykkju

Vatnið hreinsar, hressir, bætir og kætir. Og ef þú ert með slæma húð, bólur og fílapensla t.d skoðaðu þá hvað þú drekkur af vatni, ertu að drekka nóg? :)

Sothys Hreinsivatnið, tær snilld!

Ég get stundum verið ansi löt og mikill aðdáandi þess að hreinsun húðar taki sem stystan tíma (þó ég geti nú alveg tekið heilu kvöldin fyrir í heima-andlitsböð og almennt dekur en það er önnur saga)

Ég hef keypt hreinsivötn frá hinum ýmsu merkjum og líkað misvel. Fyrir þær sem ekki vita almennilega hvað hreinsivatn er þá er ég ekki að tala um andlitsvatn, heldur er þetta hreinsivara fyrir andlit sem er í raun þrennt í einu, hreinsir, andlitsvatn og augnfarðahreinsir í sama brúsanum. Sniðugt ha?

Ég datt niður á hreinsivatn frá Sothys um daginn, "Eau Thermale Spa-Velvet cleansing water", þetta vatn er mjög milt og gott, þróað í samvinnu við augnlækna skilst mér. Óóóótrúlega góð lykt af þessu og þetta kostar að mig minnir nákvæmlega 2096.- í Hagkaup. Passaði mig að sjálfsögðu að nýta mér Tax Free dagana svo ég fékk þetta með einhverjum 20% afslætti. Þessar vörur fást líka í Lyfju og mér sýnist vera mjög svipað verð hjá þeim.
Í brúsanum eru 200ml og sambærileg vara í öðrum merkjum fer ekki undir 3000 kallinn.



Ég nota þetta mest á morgnana. Þá er húðin ekkert sérlega óhrein en þarf samt að passa að hreinsa húðina vel, til þess að fjarlægja þau óhreinindi sem húðin losaði sig við þá um nóttina.
Og já, svona hreinsivötn endast mjög vel, þetta eru ekki nema kannski 2 "pumpur" á dag (á morgnana)

Engin ástæða til þess að vera drusló í kreppu!

Flestar okkar vilja líta vel út, án þess að eyða allt allt of miklu í það en það hafa fæstar okkar fjármagn til þess að kaupa heilu Chanel línurnar eða Kanebo, Dior, Clarins...

Því ákvað ég að stofna þetta blogg. Ekki til höfuðs neinu öðru bloggi svo það sé nú alveg á hreinu.
En í dag þurfum við svolítið að horfa í budduna okkar, og reyna að ákveða hvað er þess virði að kaupa og ekki. Því miður hefur það verið svo að ódýrari snyrtivörur hafa ekki verið nærri jafn góðar og þessar dýrari en nú hefur mér fundist það vera að breytast. Ég var merkjasnobb og keypti ekkert annað en dýr merki og hjálpi mér ef maskarinn hét ekki Dior eða Rubenstein og þetta er enn svolítið ríkjandi í mér. Þessu er ég meðvitað að reyna að breyta og ætla mér að víkka út fegurðar-sjóndeildarhringinn.
Ég ætla að reyna að finna og pósta hér inn allskonar ráðum, tipsum og umfjöllunum um ódýrar og góðar snyrtivörur.

Ég vil taka það fyrirfram að ég vinn ekki í snyrtivörugeiranum, fæ ekkert greitt og hér eru engar auglýsingar keyptar. Öll þau merki sem ég mun minnast á hér er vegna minnar eigin reynslu og mæli persónulega með.

Aðeins í lokin um mig: Ég hef verið förðunarfræðingur í 11 ár, unnið í snyrtivöruverslun og síðan ég var pínulítil haft áhuga á snyrtivörum, förðun, hári, tísku... eiginlega bara öllu sem við kemur því sem getur bætt útlit manns á einhvern hátt. Á tvö ár í þrítugt, gift og barnlaus skrifstofupía með smá frítíma aflögu.

Endilega haltu áfram að fylgjast með!